Liverpool mistókst að halda í við toppliðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ademola Lookman reyndist hetja Leicester í kvöld.
Ademola Lookman reyndist hetja Leicester í kvöld. Simon Stacpoole/Offside/Offside via Getty Images

Leicester varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna sigur gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðan 7. nóvember. Lokatölur urðu 1-0, en þetta var annar leikurinn í röð sem Liverpool tekst ekki að vinna.

Eins og við var kannski að búast vour það gestirnir frá Liverpool-borg sem voru sterkari aðilinn í kvöld. Eftir um það bil stundarfjórðung gerðist Wilfred Ndidi brotlegur innan eigin vítateigs þegar hann tók Mohamed Salah niður og vítaspyrna réttilega dæmd.

Salah fór sjálfur á punktinn, en Kasper Schmeichel sá við honum. Boltinn barst þó aftur út í teig þar sem Salah var sjálfur mættur í frákastið, en skalli hans hafnaði í þverslánni og heimamenn sluppu með skrekkinn.

Enn var því markalaust þegar flautað var til hálfleiks, og þrátt fyrir nokkra yfirburði gestanna í síðari hálfleik voru það heimamenn í Leicester sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Þar var á ferðinni Ademola Lookman eftir stoðsendingu frá Kiernan Dewsbury-Hall þegar rétt tæplega klukkutími var liðinn af leiknum.

Þrátt fyrir látlausa sókn gestanna það sem eftir lifði leiks tókst þeim ekki að finna jöfnunarmarkið. Kasper Schmeichel gerði oft vel og í bland við ákveðna varnarlínu liðsfélaga sinna sá hann til þess að 1-0 sigur Leicester varð að staðreynd.

Sigurinn lyftir Leicester upp í níunda sæti deildarinnar með 25 stig eftir 18 leiki. Liverpool situr enn í öðru sæti deildarinnar með 41 stig og er nú sex stigum á eftir toppliði Manchester City.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira