Enski boltinn

„Þið eruð að tala um topp fjóra, ekki við“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
David Moyes segist ekki vera að hugsa um Meistaradeildarsæti.
David Moyes segist ekki vera að hugsa um Meistaradeildarsæti. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham, segist ekki vera að hugsa um Meistaradeildarsæti eftir að hans menn komust aftur á sigurbraut með 4-1 útisigri gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir góða byrjun á tímabilinu hafði West Ham aðeins unnið einn af seinustu sjö leikjum sínum fyrir leik dagsins, og var á góðri leið með að stimpla sig snemma út úr baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Það leit út fyrir að þetta slæma gengi myndi halda áfram þegar Emmanuel Dennis kom Watford yfir strax á fjórðu mínútu.

Tvö mörk með stuttu millibili eftir tæplega hálftíma leik sáu þó til þess að West Ham fór með forystuna inn í hálfleikshléið, og gestirnir gerðu svo út um leikinn í síðari hálfleik.

West Ham situr nú í fimmta sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Arsenal sem situr í fjórða og síðasta Meistaradeildarsætinu. Aðspurður að því hversu mikilvægur sigurinn væri í baráttunni um sæti í Meistaradeildarsæti sagði Moyes að hann væri ekkert að velta því fyrir sér.

„Þið eruð að tala um topp fjóra, ekki við,“ sagði Skotinn. „Við erum bara að tala um að gera eins vel og við getum, setja pressu á toppliðin og reyna að halda okkur í kringum þau ef við getum.“

„Við nutum þess að vera í einu af efstu fjórum sætunum og nú þegar við horfum fram veginn viljum við koma okkur þangað aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×