Ellefu stiga forskot Man City eftir dramatískan sigur á Arsenal

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Að rúlla upp deildinni.
Að rúlla upp deildinni. vísir/Getty

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var fjarri góðu gamni þar sem hann glímir við kórónuveiruna en heimamenn spiluðu frábæran leik í fyrri hálfleik.

Snemma leiks gerði Arsenal tilkall til þess að fá vítaspyrnu þegar Ederson virtist brjóta á Martin Ödegaard. Eftir VAR skoðun ákvað dómarateymið að dæma ekkert.

Bukayo Saka kom Arsenal í verðskuldaða forystu eftir hálftíma leik þegar hann skoraði eftir góðan undirbúning Kieran Tierney.

Arsenal fór með forystu í leikhléið en í síðari hálfleik fór heldur betur að halla undan fæti hjá heimamönnum.

Á 55.mínútu féll Bernardo Silva til jarðar í vítateig Arsenal eftir baráttu við Granit Xhaka. Dómarinn lét leikinn halda áfram í fyrstu en eftir að VAR hafði tekið atvikið til skoðunar var vítaspyrna dæmd.

Riyad Mahrez skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og staðan orðin jöfn. Í aðdraganda vítaspyrnunnar ákvað Gabriel, varnarmaður Arsenal, að eiga við vítapunktinn og fékk gult spjald fyrir.

Tveimur mínútum síðar gerðist Gabriel svo brotlegur og uppskar sitt annað gula spjald og þar með rautt. Aldeilis vondar mínútur fyrir heimamenn.

Arsenal lék vel einum færri og fengu færi til að ná forystunni. Það tókst þeim þó ekki og stefndi allt í jafntefli þar til á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Rodri tókst að skora sigurmarkið fyrir gestina frá Manchester.

Lokatölur því 1-2 fyrir Man City sem hefur nú ellefu stiga forystu á toppi deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira