Enski boltinn

„Eina sem við köllum eftir með VAR er samræmi“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Þjálfarateymi Arsenal á hliðarlínunni í dag.
Þjálfarateymi Arsenal á hliðarlínunni í dag. vísir/Getty

Albert Stuivenberg stýrði Arsenal liðinu í fjarveru knattspyrnustjórans Mikel Arteta þegar liðið tapaði á svekkjandi hátt fyrir Man City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Arsenal náði forystu í leiknum og léku raunar frábærlega, þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

„Við erum mjög ósáttir með niðurstöðu leiksins eftir að hafa spilað svona leik við eitt besta fótboltalið heims. Að sitja uppi með ekkert stig er pirrandi því við áttum að vinna þennan leik,“ sagði Stuivenberg í leikslok.

Arsenal gerði tilkall til vítaspyrnu snemma leiks. Dómari leiksins sá ekki ástæðu til að skoða atvikið sjálfur í VAR-skjánum en gerði það svo í síðari hálfleik þegar Man City fékk vítaspyrnu.

„Mér fannst þetta vera víti en það eina sem við erum að biðja um er samræmi. Við erum að nota VAR svo afhverju skoðar dómarinn ekki atvikið? Það gerðist ekki og það er svekkjandi.“

„Við spiluðum virkilega, virkilega vel. Hvað fengum við eiginlega mörg færi? Þeir skora svo heppnismark alveg í restina,“ sagði Stuivenberg.

Hann kvartaði þó lítið yfir rauða spjaldinu sem Gabriel fékk.

„Við verðum að læra af þessu. Við höfum unga leikmenn í okkar liði og við verðum að hafa stjórn á tilfinningunum. Ég veit ekki hvort fyrra spjaldið hafi verið fyrir að stíga á vítapunktinn. Ég hef ekki getað spurt dómarann. En á gulu spjaldi verður þú að vera klókari,“ sagði Stuivenberg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×