Enski boltinn

Lukaku vill endurnýja kynnin við Conte hjá Spurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Romelu Lukaku vill komast aftur í hlýjan faðm Antonios Conte.
Romelu Lukaku vill komast aftur í hlýjan faðm Antonios Conte. epa/ELISABETTA BARACCHI

Romelu Lukaku, framherji Chelsea og belgíska landsliðsins, vill spila aftur undir stjórn Antonios Conte, knattspyrnustjóra Tottenham.

Lukaku gerði allt vitlaust með ummælum sínum í viðtali við Sky Sports á Ítalíu. Þar sagðist hann ósáttur við stöðu sína hjá Chelsea og gagnrýndi Thomas Tuchel, stjóra liðsins.

Lukaku var ekki í leikmannahópi Chelsea þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Liverpool á Stamford Bridge í gær. Tuchel sagðist hafa tekið ákveðið að hafa Lukaku utan hóps til að vernda lið Chelsea. Hann sagði jafnframt að hann myndi ræða við Lukaku í dag.

Chelsea keypti Lukaku frá Inter fyrir tæplega hundrað milljónir punda síðasta sumar en aðeins nokkrum mánuðum síðar er framtíð hans hjá félaginu í óvissu.

Lukaku lék undir stjórn Contes hjá Inter og Gazetta dello Sport greinir frá því að Belginn vilji endurnýja kynnin við sinn gamla stjóra og það hjá Tottenham. 

Þrátt fyrir að hafa farið afar vel af stað hjá Tottenham vill Conte styrkja liðið. Alls óvíst er þó hvort Spurs hafi fjárráð til að fá Lukaku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×