Enski boltinn

Lukaku áfram hjá Chelsea eftir sáttafund

Sindri Sverrisson skrifar
Romelu Lukaku kom til Chelsea í sumar og virðist ekki vera á förum neitt.
Romelu Lukaku kom til Chelsea í sumar og virðist ekki vera á förum neitt. Getty/James Williamson

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku verður ekki seldur eða lánaður frá Chelsea í janúar eða næsta sumar, þrátt fyrir viðtalið við Sky á Ítalíu sem fór illa í forráðamenn enska knattspyrnufélagsins.

Lukaku og knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel áttu sáttafund í gær vegna málsins þar sem Lukaku viðurkenndi að fyrrnefnt viðtal hefði verið mistök. Frá þessu greinir meðal annars Sky Sports.

Í viðtalinu, sem var tekið upp fyrir nokkrum vikum en fyrst sýnt síðastliðinn fimmtudag, sagðist Lukaku óánægður með hlutverk sitt hjá Chelsea og að hann vildi snúa aftur til Inter Mílanó í náinni framtíð.

Lukaku sagðist aðeins hafa farið frá Inter til Chelsea í sumar vegna þess að beiðni hans um nýjan samning hjá ítalska félaginu hefði verið hafnað.

Lukaku segist núna sjá eftir þessum ummælum og að hann hafi viljað fara til Chelsea, og gert það ótilneyddur. Þeir Tuchel eru sammála um það að málið sé búið og að nú taki við barátta um að koma Chelsea nær Manchester City í titilbaráttunni á Englandi.

Chelsea gerði 2-2 jafntefli við Liverpool á sunnudaginn en Tuchel var þá með Lukaku utan hóps vegna málsins.

Aldrei hefur komið til umræðu að Lukaku verði seldur en hann sneri aftur til Chelsea í sumar eftir að hafa orðið ítalskur meistari með Inter. Samkvæmt Sky Sports kemur ekki til greina að Lukaku verði seldur í janúar né næsta sumar. Miðillinn segir ekkert hæft í fréttum frá Ítalíu þess efnis að hann vilji endurnýja kynni sín við Antonio Conte með því að fara til Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×