Enski boltinn

Tilfinningaríkt fyrir Conte að snúa aftur á Brúna í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte vann stóran titil á báðum tímabilum sínum með Chelsea og hefur alla tíð verið mjög sigursæll knattspyrnustjóri.
Antonio Conte vann stóran titil á báðum tímabilum sínum með Chelsea og hefur alla tíð verið mjög sigursæll knattspyrnustjóri. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABAGALA

Chelsea tekur á móti Tottenham á Stamford Bridge í kvöld í fyrri leik liðanna í enska deildarbikarnum en hinum leiknum, sem átti að fara á morgun milli Liverpool og Arsenal, hefur verið frestað um viku.

Antonio Conte tók við liði Tottenham í nóvember og liðið hefur tekið stakkaskiptum undir hans stjórn. Leikurinn í kvöld verður sérstakur fyrir Conte en hann var knattspyrnustjóri Chelsea frá 2016 til 2018.

Leikur Chelsea og Tottenham hefst klukkan 19.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

„Ég átti tvö stórkostleg tímabil hjá Chelsea og eignaðist marga vini þar,“ sagði Antonio Conte á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Ég þakka Chelsea fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að vinna á Englandi,“ sagði Conte en undir hans stjórn varð Chelsea Englandsmeistari fyrri tímabilið og ensku bikarmeistari á því seinna.

Hann fór þaðan til Internazionale Milan þar sem liðið varð ítalskur meistari undir hans stjórn síðasta vor.

„Núna er ég knattspyrnustjóri Tottenham og vil gefa mínu félagið hundrað prósent til að reyna að gera liðið betra. Það verður gott að koma til baka og ég er viss um að þetta verður tilfinningaríkt fyrir mig,“ sagði Antonio Conte.

Seinni leikur liðanna fer síðan fram 12. janúar næstkomandi á Tottenham Hotspur Stadium og í boði er sæti í úrslitaleiknum á Wembley á móti annað hvort Arsenal eða Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×