Erlent

Páfinn segir það sjálfselskt að velja gæludýr fram yfir börn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Páfinn hefur margsinnis verið myndaður þar sem hann lætur vel að dýrum.
Páfinn hefur margsinnis verið myndaður þar sem hann lætur vel að dýrum. epa/Claudio Peri

Frans páfi segir sjálfselskt þegar fólk velur að eignast gæludýr í stað barna. Fólki kynni að þykja það fyndið en svona væri raunveruleikinn, sagði hann þegar hann ávarpaði viðstadda í Páfagarði.

Páfinn var að ræða foreldrahlutverkið þegar hann sagði að í dag yrði vart ákveðinnar sjálfselsku. „Við sáum að sumt fólk vill ekki eignast barn,“ sagði hann í þessu samhengi.

„Stundum á það eitt barn og ekki fleiri en það á hunda og ketti sem koma í stað barna. Þetta kann að vekja hlátur en þetta er raunveruleikinn,“ sagði páfi.

Páfi sagði þetta afneitun á móður- og föðurhlutverkinu og gera lítið úr manninum; draga úr mannúð mannkynsins. Hann sagði að þeir sem gætu ekki eignast börn af líffræðilegum ástæðum ættu að íhuga að ættleiða og að fólk ætti ekki að óttast foreldrahlutverkið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem páfinn viðrar þá skoðun sína að fólk sé að skipta barneignum út fyrir gæludýr en árið 2014 sagði hann það auðveldara tilfinningalega að eiga dýr en börn en það væri til marks um „menningarlega hrörnun“ þegar fólk veldi dýr fram yfir börn. 

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×