Arsenal úr leik eftir tap gegn B-deildarliði Nottingham Forest

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Lewis Grabban skoraði sigurmark Nottingham Forest.
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Lewis Grabban skoraði sigurmark Nottingham Forest. James Williamson - AMA/Getty Images

B-deildarlið Nottingham Forest gerði sér lítið fyrir og sló Arsenal úr leik í þriðju umferð FA bikarsins í kvöld. Arsenal er sigursælasta liðið í sögu FA bikarsins, en eru nú úr leik eftir 1-0 tap á City Ground vellinum í Nottingham.

Fyrri hálfleikur var heldur tíðindalítill og fátt um fína drætti er varðar marktækifæri. Liðin gengu því til búningsklefa er enn var markalaust.

Síðari hálfleikur var heldur líflegri og bæði lið sköpuðu sér álitleg færi. Illa gekk þó að koma boltanum í netið en það tókst þó loksins þegar um átta mínútur voru til leiksloka.

Þar var á ferðinni Lewis Grabban eftir stoðsendingu frá Ryan Yates og allt ætlaði að verða gjörsamlega vitlaust á City Ground vellinum. Áhorfendur streymdu inn á völlinn til að fagna markinu og erfiðlega gekk að ná að hefja leik á ný.

Endursýningar sýndu að boltinn hafði farið í hönd eins leikmanns Nottingham Forest í aðdraganda marksins, en þar sem ekkert VAR var á svæðinu stóð markið.

Leikurinn hófst að lokum á ný en gestirnir í Arsenal náðu ekki að jafna metin og þvinga þannig fram framlengingu. Niðurstaðan varð 1-0 sigur heimamanna og Arsenal er úr leik í FA bikarnum.

Nottingham Forest er hins vegar á leið í fjórðu umferð þar sem ríkjandi bikarmeistarar Leicester bíða þeirra.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira