Enski boltinn

Arsenal leikur í hvítu til að berjast gegn hnífaárásum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arsenal mun leika í hvítum treyjum á sunnudaginn sem verða svo gefnar samtökum sem vinna í þágu samfélagsins að leik loknum.
Arsenal mun leika í hvítum treyjum á sunnudaginn sem verða svo gefnar samtökum sem vinna í þágu samfélagsins að leik loknum. Arsenal.com

Enska knattspyrnufélagið Arsenal mun leika í hvítum búningum er liðið mætir Nottingham Forest í FA bikarnum á sunnudaginn til að berjast gegn hnífaárásum meðal ungmenna í London.

Á seinasta ári voru 27 ungmenni stungin til bana í London, og morðtíðni meðal táninga í höfuðborginni var sú hæsta síðan árið 2008, þrátt fyrir útgöngubann um allt landið.

Herferðin ber nafnið  „No More Red,“ eða ekki meira rautt, og með henni er vonast til að veita ungu fólki fleiri örugg og jákvæð svæði.

Búningarnir sem Arsenal munu leika í verða alveg hvítir, meira að segja auglýsingarnar og merki liðsins á búningnum, en þeir munu þó ekki fara í almenna sölu, heldur verða þeir gefnir samtökum sem vinna í þágu samfélagsins.

Arsenal leikur í búningum frá Adidas, en liðið hefur fullan stuðning íþróttavörumerkjarisans, sem og leikarans Idris Elba og fyrrum leikmanns liðsins, Ian Wright.

„Við megum aldrei sætta okkur við það að tapa lífi ungrar manneskju vegna ofbeldis og líta á það sem venjulegan hlut í borginni okkar,“ sagði Wright.

„Það er virkilega mikilvægt að við vinnum öll saman í því að búa til betra umhverfi fyrir unga fólkið okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×