Enski boltinn

Conte: Dyrnar standa Eriksen alltaf opnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte fékk Eriksen til Inter frá Tottenham á sínum tíma.
Antonio Conte fékk Eriksen til Inter frá Tottenham á sínum tíma. Claudio Villa - Inter/Inter via Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir að dyrnar standi Christian Eriksen alltaf opnar ef leikmaðurinn vill æfa til að elta draum sinn um að spila á HM í Katar í lok þessa árs.

Eins og flestir vita fór Eriksen í hjartastopp í leik danska landsliðsins gegn því finnska á Evrópumótinu síðasta sumar og hefur ekki leikið knattspyrnu síðan.

Hann er í leit að nýju félagi eftir að hafa yfirgefið Ítalíumeistara Inter á dögunum, en lög og reglur ítölsku deildarinnar kveða á um að ekki megi spila þar í landi með ígræddan gangráð.

Eriksen lék einmitt undir stjórn Conte hjá Inter, en það var Conte sem fékk hann til félagsins frá Tottenham. Á seinustu dögum hafa myndskeið af Eriksen sparka í bolta birst og hann segist finna formið koma hægt og rólega til baka og vonast til að spila fyrir danska landsliðið á HM í Katar í vetur.

Conte var spurður út í Eriksen í vikunni og Ítalinn hrósaði leikmanninum í hástert ásamt því að senda honum þau skilaboð að honum sé velkomið að nýta sér æfingaaðstöðu Tottenham, sem þykir ein sú besta í heimi.

„Klárlega, það var frábært að sjá að hann er mættur aftur á völlinn, að sjá hann sparka í bolta,“ sagði Conte.

„Það se, gerðist í sumar var alls ekki gott, ekki gott fyrir fólkið sem vinnur með honum og ekki gott fyrir fólkið sem þekkir hann. Ég var hræddur á þessu augnabliki.“

„En að sjá hann tilbúinn að spila fótbolta aftur eru frábærar fréttir. Ég held að dyrnar standi alltaf opnar fyrir Eriksen,“ sagði Conte að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×