Enski boltinn

Mörg fölsk jákvæð próf innan herbúða Liverpool ollu frestun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp segir að allir nema einn hafi fengið falska jákvæða niðurstöðu.
Jürgen Klopp segir að allir nema einn hafi fengið falska jákvæða niðurstöðu. Getty/Andrew Powell

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að hópsmitið sem varð til þess að leik liðsins gegn Arsenal í undanúrslitum enska deildarbikarsins síðastliðinn fimmtudag hafi jafnvel ekki verið jafn alvarlegt og áður var talið.

Klopp segir að mörg prófin hafi gefið falska jákvæða niðurstöðu og því hafi þurft að fresta leiknum. Þeir sem fengu falska jákvæða niðurstöðu gátu þó heldur ekki tekið þátt í leik liðsins gegn Shrewsbury í FA bikarnum í gær.

Hann segir ennfremur að bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold sé sá eini sem greindist með kórónuveiruna í raun og veru.

Klopp neyddist því til að stilla upp mjög ungu liðið gegn Shrewsbury í gær. Í byrjunarliðinu voru fjórir táningar, þar á meðal Kaide Gordon sem skoraði jöfnunarmark Liverpool. Rauði herinn vann að lokum 4-1.

„Þetta var liðið sem við gátum stillt upp í dag og strákarnir stóðu sig mjög vel,“ sagði Klopp eftir sigurinn í gær.

„Í síðustu viku lentum við í alvöru hópsmiti, en svo kom í ljós að við hefðum fengið margar falskar jákvæðar niðurstöður. En reglurnar eru bara svona þannig að þeir sem fengu falska jákvæða niðurstöðu gátu ekki spilað í dag.“

„Eina rétta jákvæða niðurstaðan var hjá Trent Alexander-Arnold en restin voru falska jákvæðar niðurstöður.“

Liverpool neyddist til að loka æfingasvæði sínu í síðustu viku eftir að aðstoðarþjálfari liðsins, Pep Lijnders var sendur í einangrun. Lijnderst stýrði liðinu gegn Chelsea í fjarveru Klopps síðustu helgi. Þá var talið að Þjóðverjinn væri smitaður, en hann gat snúið aftur á hliðarlínuna gegn Shrewsbury í gær.

Fyrri undanúrslitaleikur Liverpool og Arsenal fer fram á Anfield næsta fimmtudag, og sá síðari verður spilaður á Emirates vellinum viku síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×