Enski boltinn

Smitum fækkar í ensku úrvalsdeildinni aðra vikuna í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Áhorfendur sem mæta á leiki í ensku úrvalsdeildinni þurfa að fylgja ýmsum reglum við komuna á leiki. Þetta skilti má sjá fyrir utan Tottenham Hotspur leikvanginn.
Áhorfendur sem mæta á leiki í ensku úrvalsdeildinni þurfa að fylgja ýmsum reglum við komuna á leiki. Þetta skilti má sjá fyrir utan Tottenham Hotspur leikvanginn. Adam Davy/PA Images via Getty Images

Færri leikmenn og starfsmenn ensku úrvalsdeildarinnar greindust með kórónuveiruna síðastliðna viku en vikuna þar á undan. Þetta er önnur vikan í röð sem smitum fækkar.

Alls greindust 72 ný kórónuveirusmit meðal leikmanna og starfsmanna ensku úrvalsdeildarinnar dagana 3.-9. janúar af þeim 12.973 sýnum sem tekin voru.

Vikuna á undan greindust 94 smit, en það var í fyrsta skipti í átta vikur sem smitum fækkaði á milli vikna.

Vikuna 27. desember til 2. janúar voru reyndar tekin 14.250 sýni, en þrátt fyrir að tekin hafi verið tæplega 1.300 færri sýni þessa síðustu viku lækkar hlutfall jákvæðra sýna einnig.

Þrátt fyrir að smitum fari fækkandi innan ensku úrvalsdeildarinnar kemur það ekki í veg fyrir að veiran geri sitt besta til að fresta leikjum. Leik Everton og Leicester sem átti að fara fram á morgun hefur verið frestað, en það er 19. leikurinn sem þarf að níða með vegna veirunnar.

Þá voru þjálfarar Manchester City og Burnley, Pep Guardiola og Sean Dyche, fjarverandi er lið þeirra mættu til leiks í FA bikarnum um helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá talsmönnum Manchester City var Guardiola einn af 21 einstakling innan félagsins sem var í einangrun vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×