Enski boltinn

„Ég er ekki að biðja um eitthvað brjálæðislegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah er sennilega besti knattspyrnumaður heims í dag og vill laun við hæfi.
Mohamed Salah er sennilega besti knattspyrnumaður heims í dag og vill laun við hæfi. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Mohamed Salah segist ekki vera að biðja um neitt „brjálæðislegt“ í samningaviðræðum sínum við Liverpool, sem halda áfram að dragast á langinn.

Þetta segir Salah í stóru viðtali við tímaritið GQ. Þar er Egyptinn magnaði kynntur sem „besti leikmaður heims í dag“ en þess jafnframt getið að heimurinn hafi ekki alveg viðurkennt það enn þá.

Salah, sem er 29 ára, hefur verið Liverpool afar dýrmætur síðan hann kom frá Roma sumarið 2017 og kannski aldrei meira en í vetur. Hann er langmarkahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 16 mörk í 20 leikjum.

Samningur Salah við Liverpool var síðast endurnýjaður árið 2018 og rennur hann út eftir eitt og hálft ár, sumarið 2023. Viðræður um nýjan samning hafa enn engu skilað en Salah segir það vera á ábyrgð eigenda Liverpool. Hann sé ekki með óraunhæfar kröfur.

„Mig langar að vera áfram en þetta er ekki í mínum höndum. Þetta er í þeirra höndum,“ sagði Salah við GQ.

„Þeir vita hvað ég vil. Ég er ekki að biðja um eitthvað brjálæðislegt,“ sagði Salah.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði við Sky Sports í síðasta mánuði að félagið ætti í mjög góðu samtali við Salah um nýjan samning. Enn stendur þó eitthvað í veginum.

Í grein GQ segir að fyrir Salah snúist nýr samningur um meira en peninga. Hann vilji fá viðurkenningu á því sem hann hafi gert og geri fyrir Liverpool, sem vann langþráðan Englandsmeistaratitil og Evrópumeistaratitil með Salah í broddi fylkingar.

„Málið er að þegar maður biður um eitthvað og þeir sýna að þeir geta gefið manni eitthvað, þá ættu þeir að gera það því þeir kunna að meta það sem maður hefur gert fyrir félagið. Ég er núna á fimmta ári mínu hérna. Ég þekki félagið mjög vel. Ég elska stuðningsmennina. Þeir elska mig. En stjórnin hefur fengið að vita stöðuna. Þetta er í þeirra höndum,“ sagði Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×