Enski boltinn

Tottenham sagt vonast til að fá Man Utd manninn Lingard frítt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesse Lingard fagnar marki fyrir Manchester United.
Jesse Lingard fagnar marki fyrir Manchester United. EPA-EFE/PETER POWELL

Framtíð Jesse Lingard er ekki hjá Manchester United en það verður líklegra með hverjum deginum að félagið fái ekki neitt fyrir hann. Hann gæti endað hjá sterku liði í ensku úrvalsdeildinni.

Samningur Lingard og Manchester United rennur út í júní en hann hefur verið í algjöru aukahlutverki undanfarin ár. Það breyttist ekki þegar Ralf Rangnick tók við liðinu af Ole Gunnari Solskjær.

ESPN hefur heimildir fyrir því Tottenham sé eitt af félögunum sem ætli sér að fá hann frítt í sumar. Félagið hefur samt ekki boðið Lingard formlegan samning. Fleiri miðlar hafa einnig fjallað um áhuga Tottenham á leikmanninum.

Lingard er orðinn 29 ára gamall og er því að elta mögulega síðasta stóra samninginn sinn á ferlinum. Það er vitað af áhuga lið á Ítalíu og Spáni eins og Barcelona og AC Milan.

Lingard fór á láni til West Ham á síðasta tímabili og stóð sig þá frábærlega þar sem hann skoraði níu mörk og gaf fimm stoðsendingar í aðeins sextán leikjum.

Tækifæri á þessu tímabili hafa verið fá en Lingard hefur aldrei byrjað í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur skorað tvö mörk í þeim átta leikjum sem hann hefur komið inn á sem varamaður.

Lingard þarf nauðsynlega að fara að spila meira ætli hann sér að vinna sér sæti í HM-hóp Englendinga en heimsmeistarakeppnin fer fram í Katar í nóvember og desember á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×