Tíu leikmenn Arsenal héldu út gegn Liverpool

Granit Xhaka fékk að líta beint rautt spjald í kvöld.
Granit Xhaka fékk að líta beint rautt spjald í kvöld. Chloe Knott - Danehouse/Getty Images

Liverpool og Arsenal gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum enska deildarbikarsins í kvöld.

Útlitið varð strax slæmt fyrir gestina í Arsenal, en varnarmaðurinn Cedric Soares virtist meiðast strax á fyrstu mínútu. Hann hélt leik þó áfram um stund, en þurfti að fara af velli eftir um tíu mínútna leik.

Ekki batnaði útlitið fyrir Arsenal stuttu seinna, en á 24. mínútu fékk Granit Xhaka að líta beint rautt spjald fyrir að sparka í Diogo Jota sem var við það að sleppa einn í gegn. Þetta var fimmta rauða spjaldið sem Xhaka fær síðan hann gekk í raðir Arsenal árið 2016, en enginn leikmaður hefur verið sendur jafn oft snemma í sturtu og hann á þeim tíma.

Eins og við var að búast voru það ellefu leikmenn Liverpool sem sáu meira af boltanum, en illa gekk að skapa sér opin marktækifæri.

Raunar gekk það svo illa að Liverpool átti ekki eitt einasta skot á markið í leiknum í kvöld. Liðið var rúmlega 75 prósent með boltann, en Arsenal átti eina skot leiksins sem fór á markið.

Lokatölur urðu því 0-0, en liðin mætast á ný á heimavelli Arsenal að viku liðinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira