Enski boltinn

Cristiano Ronaldo hljómar eins og Brady: Ætlar að spila sex ár í viðbót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo er í afburðaformi. Hér fagnar hann marki með Manchester United á tímabilinu.
Cristiano Ronaldo er í afburðaformi. Hér fagnar hann marki með Manchester United á tímabilinu. Getty/Ash Donelon

Þeir sem héldu að Cristiano Ronaldo væri kominn „heim“ til Manchester United til að kveðja geta búist við að sjá kappann á stóra sviðinu næstu ári. Hinn 36 ára gamli Portúgali telur sig eiga nóg eftir enn.

Ronaldo ræddi framtíðarplön sín í viðtali við ESPN í Brasilíu og þar kom fram að hann trúi því að hann geti jafnvel spilað þangað til að hann verður 42 ára gamall eða til ársins 2028.

„Ég er ánægður með að vera leikmaður sem hefur sýnt að það er hægt að spila lengi á hæsta stigi og vera áfram að skila góðri frammistöðu,“ sagði Cristiano Ronaldo.

Ronaldo er farinn að hljóma eins og NFL-leikmaðurinn Tom Brady sem er enn að spila sinn besta leik þrátt fyrir að vera orðinn 44 ára. Brady hugsar mjög vel um sig og það gerir Ronaldo líka. Ronaldo er ekkert að fara að hætta.

„Genalega þá líður mér eins og ég sé þrjátíu ára. Ég hugsa mjög vel bæði um líkamann og hugann. Það sem ég hef lært nýverið er að eftir 33 ára þá getur líkaminn skilað þér þangað sem þú vilt fara en aðalbaráttan er sú andlega,“ sagði Ronaldo.

„Að fara í gegnum svo margt með það markmið að halda sér á hæsta stigi er það erfiðasta. Það hef ég verið að gera undanfarin ár. Ég hef unnið meira í huganum. Ég veit að líkaminn ræður við þetta því ég virði hann og hlusta á hann,“ sagði Ronaldo.

„Lífið bíður upp á allskonar stundir, góðar og slæmar. Þegar þú dettur þá verður þú að hafa styrkinn til að standa upp aftur. Ég er ánægður og vil vera áfram hjá Manchester United og sjá hvað gerist. Ég vil komast að því hvort ég get spilað þangað til ég verð 40 ára, 41 árs eða 42 ára. Mikilvægasta að öllu er daglega markmið mitt að njóta hverrar stundar,“ sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×