Enski boltinn

Þrír fyrrum heimsklassa leikmenn sagðir vera á stjóralista Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Cannavaro á verðlaunahátíð Gullhnattarins á síðasta ári en hann vann hann árið 2006.
Fabio Cannavaro á verðlaunahátíð Gullhnattarins á síðasta ári en hann vann hann árið 2006. EPA-EFE/YOAN VALAT

Everton er sagt í enskum miðlum vera með þrjá menn á lista yfir þá sem forráðamenn félagsins vilja ræða við um að taka við framtíðarstjórastöðu félagsins.

Everton rak Rafa Benitez um síðustu helgi eftir skelfilegt gengi að undanförnu en hann náði bara að sitja í stjórastólnum í tvö hundruð daga. Everton tapaði níu af síðustu þrettán leikjum undir stjórn hans þar af þeim síðasta á móti botnliði Norwich.

Duncan Ferguson tekur við sem tímabundinn knattspyrnustjóri líkt og hann hefur gert oft á síðustu árum þegar Everton hefur rekið knattspyrnustjóra sinn.

Einn af þessum þremur sem eru á lista Everton er Ítalinn Fabio Cannavaro sem var á sínum tíma einn allra besti varnarmaður heims og leiðtogi ítalska landsliðsins sem varð heimsmeistari 2006. Bæði The Telegraph og Daily Mail segja að Everton vilji ræða við Cannavaro.

Hinir tveir á listanum eru þeir Wayne Rooney og Frank Lampard, tveir af bestu leikmönnunum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Fabio Cannavaro er 48 ára og síðasta starf hans var hjá Guangzhou í Kína. Hann hefur ekki stýrt félagi í Evrópu heldur aðeins í Kína og Sádí Arabíu.

Wayne Rooney er 36 ára gamall og núverandi knattspyrnustjóri Derby County í ensku b-deildinni en Frank Lampard er 43 ára og hefur verið atvinnulaus síðan Chelsea lét hann fara fyrir um það bil ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×