Enski boltinn

Ekki fleiri handtökur í tengslum við fótboltaleiki á Englandi í fjölda ára

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lögregla og gæslufólk hefur oft þurft að grípa inn í á yfirstandandi tímabili.
Lögregla og gæslufólk hefur oft þurft að grípa inn í á yfirstandandi tímabili. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

Handtökur á fótboltaleikum í fimm efstu deildum Englands hafa ekki verið fleiri í fjölda ára og óspektir áhorfenda eru að versna samkvæmt lögreglu og gæslufólki í kringum fótboltaleiki.

Nýjustu tölur horfa á fyrri helming yfirstandandi tímabils og á fyrstu sex mánuðum tímabilsins hafa yfir 800 manns verið handteknir í tengslum við fótbolta leiki. Þá hafa einnig borist yfir 750 tilkynningar um óspektir.

Yfirlögregluþjónninn Mark Roberts segeir að hegðun yngri stuðningsmanna sé sérstakt áhyggjuefni. Roberts hefur áður viðrað áhyggjur sínar af því að leyfa svokallað „Safe standing“ á leikjum þar sem engin sæti eru á ákveðnum svæðum. Þá hefur hann einnig velt fyrir sér afleiðingunum af því að leyfa stuðningsmönnum að neyta áfengis í kringum vellina.

Nýjustu tölur taka fyrir tímabilið 1. júlí til 31. desember 2021 og þær eru svo bornar saman við sama tímabil árið 2019, rétt áður en áhorfendur voru bannaðir vegna kórónuveirufaraldursins.

Á þeim tíma hefur lögreglan í Bretlandi handtekið 802 manns, en það er 47 prósent aukning frá 2019 þegar 547 manns voru handteknir. Aldrei hafa fleiri verið handteknir í tengslum við fótboltaleiki frá því að farið var að halda utan um þessa tölfræði tímabilið 2015-2016.

Þá hafa borist tilkynningar um óspektir á tæplega helmingi allra leikja í efstu fimm deildum Englands, eða á 48 prósent leikja. Árið 2019 var tilkynnt um óspektir á 34 prósent leikja.

Þá hafur atvikum þar sem að ungmenni eiga hlut að máli einnig fjölgað úr 154 árið 2019 upp í 210 á seinni hluta síðasta árs.

Þessi fjölgun á sér stað þrátt fyrir að færri leikir hafi verið spilaðir á seinni hluta 2021 heldur en 2019. Árið 2019 voru leiknir 1.670 leikir á seinni hluta árs, en vegna frestanna hafa voru þeir 1.581 á sama tímabili í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×