Enski boltinn

„Þeir sem trúa ekki geta farið heim“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Watford hefur tapað 11 af 13 leikjum sínum undir stjórn Ranieri.
Watford hefur tapað 11 af 13 leikjum sínum undir stjórn Ranieri. Robin Jones/Getty Images

Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Watford, segir að þeir leikmenn sem trúa ekki að liðið geti bjargað sér frá falli úr ensku úrvalsdeildinni geti allt eins farið heim til sín.

Liðið tapaði 3-0 gegn Norwich í mikilvægum fallbaráttuslag í gærkvöldi, en þau úrslit þýða að Watford situr nú í fallsæti en Norwich tveimur stigum fyrir ofan þá í öruggu sæti. Norwich hefur þó leikið tveimur til fimm leikjum meira en öll liðin á fallsvæðinu og því eiga þau öll möguleika á að snúa genginu við.

Watford hefur nú tapað 11 leikjum af þeim 13 sem Ranieri hefur verið við stjórnvölin, og Ítalinn segir að leikurinn í gæri hafi verið mikilvæg lexía fyrir leikmenn hans.

„Norwich kenndi okkur mikilvæga lexíu. Þeir spiluðu sem lið, en við spiluðum sem einstaklingar,“ sagði Ranieri.

Þjálfarinn virtist virkilega óánægður með leikmenn liðsins, en Watford er nú án sigurs í seinustu átta leikjum. Sjö af þessum átta hafa tapast.

„Mig langar að biðja stuðningsmenn liðsins afsökunar af því að við vildum gera betur. Ég bað leikmennina að reyna að kveikja eldinn af því að þetta var leikur sem við máttum ekki tapa. En eftir fyrsta markið þá hurfum við.“

„Ég hef trú á að ég og leikmennirnir munum bregðast við þessu. Það gengur ekki að halda svona áfram því að þá erum við á beinustu leið niður í B-deildina. Ég vil sjá leikmennina leggja líkama og sál í að spila fyrir félagið.“

„Ég ræði við stjórnina á hverjum degi og við erum allir í þessu saman. Ég hef trú á þessum leikmönnum. Þeim leikmönnum sem vilja trúa. Þeir sem trúa ekki geta farið heim,“ sagði Ranieri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×