Enski boltinn

Welbeck bjargaði stigi fyrir Brighton

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Danny Welbeck skoraði jöfnunarmark Brighton.
Danny Welbeck skoraði jöfnunarmark Brighton. Bryn Lennon/Getty Images

Danny Welbeck sá til þess að Leicester og Brighton skiptu stigunum á milli sín þegar hann jafnaði metin í 1-1 á lokamínútum leiksins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Eftir að hafa náð að tapa á ótrúlegan hátt gegn Tottenham Hotspur í seinustu umferð hefur það verið eins og blaut tuska í andlitið fyrir leikmenn Leicester að tapa stigum á lokamínútum leiksins annan leikinn í röð.

Þeir komust yfir strax í upphafi síðari hálfleiks með marki frá Patson Daka eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik.

Eftir markið voru gestirnir í Brighton líklegri aðilinn til að skora næsta mark og það tókst loksins á 82. mínútu þegar Danny Welbeck skallaði fyrirgjöf Neal Maupay í netið.

Gestirnir vildu þó meira en bara eitt stig og sóttu stíft það sem eftir lifði leiks. Það dugði þó ekki til og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.

Úrslitin þýða lítið fyrir stöðu liðanna í deildinni, en þau eru enn hlið við hlið í töflunni. Brighton situr í níunda sæti með 30 stig og Leicester í því tíunda með 26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×