Enski boltinn

Fékk bara hálfa mínútu til að reyna að sannfæra Gerrard um að koma til United

Sindri Sverrisson skrifar
Steven Gerrard var á Old Trafford á dögunum, sem knattspyrnustjóri Aston Villa.
Steven Gerrard var á Old Trafford á dögunum, sem knattspyrnustjóri Aston Villa. Getty/Martin Rickett

Gary Neville rifjaði upp þegar hann, sem leikmaður Manchester United, reyndi að sannfæra þrjá enska landsliðsmenn um að ganga til liðs við félagið. Samtalið við Steven Gerrard náði ekki langt.

Neville rifjaði þetta upp í samtali við Jamie Carragher í Monday Night Football.

Á sínum tíma reyndi Neville að hafa áhrif á Alan Shearer og Wayne Rooney, í von um að þeir kæmu á Old Trafford. Þar endaði Rooney reyndar eftir að hafa alist upp hjá Everton.

Neville ræddi einnig við Liverpool-goðsögnina Steven Gerrard en óhætt er að segja að það hafi ekki náð langt, þó að Neville hafi talið óhættara að leggja þunga áherslu á orð sín við Gerrard en ungan Rooney.

„Varðandi Steve þá var maður klár í hreina árás. Ég ætlaði mér að fá hann í burtu þaðan [frá Liverpool]. Svarið frá Stevie var það að hann og fjölskylda hans myndu aldrei geta farið aftur til Liverpool-borgar. Þetta var mjög stutt samtal,“ sagði Neville.

„Hann sýndi mikla hollustu, Liverpool-stuðningsmenn. Ekki þó sömu hollustu þegar John Terry fór inn í herbergið til hans. Ég held að John Terry hafi fengið alla vega tíu mínútur með honum en ég fékk svona 30 sekúndur,“ sagði Neville léttur en Terry reyndi að sannfæra Gerrard um að koma til Chelsea sumarið 2004, þegar Chelsea var undir stjórn Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×