Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin íhugar að breyta reglum um frestun leikja

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikur Arsenal og Tottenham sem átti að fara fram þann 16. janúar er nýjasta dæmið um frestaðan leik í ensku úrvalsdeildinni.
Leikur Arsenal og Tottenham sem átti að fara fram þann 16. janúar er nýjasta dæmið um frestaðan leik í ensku úrvalsdeildinni. Tom Jenkins/Getty Images

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinna munu funda á morgun til að ræða breytingar á reglum sem leyfa liðum að sækja um frestun leikja vegna kórónuveirufaraldursins, en deildin hefur verið harðlega gagnrýnd vegna fjölda frestaðra leikja undanfarnar vikur.

Alls hefur deildin frestað 22 leikjum á yfirstandandi tímabili vegna kórónuveirusmita, meiðsla og landsliðsverkefna leikmanna í deildinni. Nú seinast var stórleik Arsenal og Tottenham frestað þann 16. janúar, en margir klóruðu sér í hausnum yfir því hvernig Arsenal tókst að fá þá frestun í gegn.

Nýju reglurnar gætu verið klárar fyrir 5. febrúarnæstkomandi, en þá hefst deildin á ný eftir tveggja vikna pásu.

Eins og áður segir hefur enska úrvalsdeildin setið undir gagnrýni fyrir þann fjölda leikja sem hefur verið frestað, en gagnrýnin snýr aðallega að því að mögulega hafi félög deildarinnar nýtt sér regluverkið til að fá leikjum frestað þrátt fyrir að hafa nógu marga leikfæra leikmenn.

Félög deildarinnar fengu að vita af því í desember að þau skildu mæta til leiks ef 13 leikmenn væru tilbúnir í slaginn, þar á meðal einn markvörður. Þetta var gert til að bregðast við kórónuveiruhópsmitum innan félaganna.

Hins vegar hafa liðin getað talið meidda leikenn, sem og þá leikmenn sem eru staddir í landsliðsverkefnum, sem fjarverandi leikmenn þegar sótt er um frestun.

Nú þegar á að fara að ráðast í tilslakanir á sóttvarnarreglum á Englandi telja forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar tímabært að endurskoða reglurnar, sérstaklega í ljósi þess að smitum innan deildarinnar hefur nú fækkað fjórar vikur í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×