Enski boltinn

Yrði nær hjarta Mo Salah en þeir titlar sem hann hefur unnið með Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið frábær með Liverpool á leiktíðinni en hann þarf að gera mikið ætli Egyptar að vinna Afríkukeppnina í ár.
Mohamed Salah hefur verið frábær með Liverpool á leiktíðinni en hann þarf að gera mikið ætli Egyptar að vinna Afríkukeppnina í ár. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Mohamed Salah og félagar í egypska landsliðinu mæta Fílabeinsströndinni í sextán liða úrslitum Afríkukeppninnar í dag. Salah ræddi það á blaðamannafundi fyrir leikinn hvað það myndi skipta hann miklu máli að vinna titil með landsliðinu.

Mohamed Salah hefur unnið bæði ensku úrvalsdeildina og Meistaradeildina með Liverpool en þeir titlar myndu ekki standast samanburðinn við það að vinna titil með Egyptalandi.

„Auðvitað vil ég vinna eitthvað með landsliðinu. Þetta er landið mitt og það sem ég elska mest,“ sagði Mohamed Salah á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það yrði allt öðruvísi að vinna þennan titil og þessi titill yrði næst hjarta mínu,“ sagði Salah eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hann vann Meistaradeildina 2019 og ensku úrvalsdeildina árið eftir. Salah hefur verið magnaður með Liverpool á þessu tímabili en hann er með 23 mörk og 9 stoðsendingar í 26 leikjum í deild og Meistaradeild það sem af er leiktíðarinnar.

„Við vorum nálægt því að vinna hann og gáfum þá allt okkar en höfðum ekki heppnina með okkur,“ sagði Salah sem tapaði í úrslitaleik Afríkukeppninnar á móti Kamerún árið 2017.

Hann hefur skorað eitt mark í fyrstu þremur leikjum Egyptalands í keppninni en liðið hefur aðeins skorað tvö mörk samanlagt í þeim.

Salah skorað tvö mörk í fjórum leikjum í síðustu Afríkukeppni árið 2019 en þá tapaði Egyptaland 1-0 á móti Suður-Afríku í sextán liða úrslitunum.

„Nú erum við komnir hingað til að berjast um nýjan titil og við verðum að gefa allt okkar til að vinna hann. Ég er viss um að hinir leikmennirnir eru sama sinnis og ég. Við verðum bara að einbeita okkur að leiknum á morgun og sjá hvað það skilar okkur,“ sagði Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×