Enski boltinn

Tottenham fær Juventus-par en selur Alli og lánar Ndombele

Sindri Sverrisson skrifar
Dejan Kulusevski og Rodrigo Bentancur yfirgefa Tórínó og halda til Lundúna til að leika undir stjórn Ítalans Antonio Conte.
Dejan Kulusevski og Rodrigo Bentancur yfirgefa Tórínó og halda til Lundúna til að leika undir stjórn Ítalans Antonio Conte. Getty/Valerio Pennicino

Síðasti dagur félagaskiptagluggans hefur verið annasamur hjá Tottenham en enska knattspyrnufélagið hefur nú fengið tvo leikmenn frá ítalska risanum Juventus.

Úrúgvæski miðjumaðurinn Rodrigo Bentancur og sænski kantmaðurinn Dejan Kulusevski eru komnir til Tottenham. Félagið keypti hinn 24 ára gamla Bentancur fyrir 15,9 milljónir punda en verðið gæti hækkað um 5 milljónir punda. Hann skrifaði undir samning til ársins 2026.

Kulusevski, sem er 21 árs, kemur að láni en lánssamningurinn gildir fram á sumarið 2023 og hefur Tottenham þá forkaupsrétt að houm fyrir 29,2 milljónir punda.

Tottenham hefur hins vegar látið franska miðjumanninn Tanguy Ndombele fara, aftur til Lyon, að láni út tímabilið. Félagið keypti hann fyrir metfé eða 60 milljónir evra (53,8 milljónir punda).

Þá greinir félagaskiptafréttamiðlarinn virti Fabrizio Romano frá því að frágengið sé að Dele Alli fari frá Tottenham, til Everton, þar sem Frank Lampard er nú tekinn við stjórnartaumunum. Alli á þó eftir að gangast undir læknisskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×