Enski boltinn

Roy Keane á leið í þjálfun á ný?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Roy Keane.
Roy Keane. Ash Donelon/Manchester United

Manchester United goðsögnin Roy Keane er sagður íhuga alvarlega að dusta rykið af þjálfaramöppunni og taka að nýju við Sunderland.

Keane hefur starfað sem sérfræðingur um enska boltann fyrir Sky Sports undanfarin ár en hans síðasta starf í þjálfun var þegar hann var um stutt skeið aðstoðarþjálfari Nottingham Forest árið 2019.

Enska C-deildarliðið Sunderland er í leit að knattspyrnustjóra eftir að Lee Johnson var látinn taka pokann sinn eftir 6-0 tap gegn Bolton Wanderers um síðustu helgi.

Þrátt fyrir skellinn er Sunderland í ágætum málum í 3.sæti deildarinnar og á góðan möguleika á að fara upp í B-deildina, ef ekki beint þá í gegnum umspil.

Frumraun Keane í þjálfun var einmitt hjá Sunderland árið 2008 en hann stýrði þá liðinu upp úr ensku B-deildinni á sínu fyrsta tímabili sem stjóri félagsins en steig svo frá borði um mitt tímabil þegar liðið var í 18.sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×