Enski boltinn

Jóhann Berg fékk botnlangabólgu

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson getur ekki spilað með Burnley á næstunni eftir að hafa fengið botnlangabólgu.
Jóhann Berg Guðmundsson getur ekki spilað með Burnley á næstunni eftir að hafa fengið botnlangabólgu. Getty/Stu Forster

Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið frá æfingum undanfarið með enska úrvalsdeildarliðinu Burnley vegna botnlangabólgu.

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag. Stjórinn fór þó ekki nánar út í það hvenær Jóhann hefði greinst með sjúkdóminn en af orðum Dyche að dæma er íslenski landsliðsmaðurinn búinn í aðgerð vegna botnlangabólgunnar og aðeins spurning hvenær hann snýr aftur til leiks.

Samkvæmt vef Landspítalans felst meðferð við botnlangabólgu í bráðri skurðaðgerð sem talin er tiltölulega einföld og mjög örugg. Einkenni sjúkdómsins eru misjöfn en byrja yfirleitt með verk í eða ofan við nafla sem færist svo gjarnan niður og til hægri í kviðarholinu. Verkurinn stigmagnast þegar á líður og er sérstaklega slæmur við hreyfingu.

Óljóst er hve lengi Jóhann hefur verið með sjúkdóminn en hann var síðast í byrjunarliði Burnley í leiknum gegn Leeds 2. janúar, en spilaði einnig síðustu sjö mínúturnar gegn Arsenal 23. janúar, í síðasta leik fyrir stutt vetrarhlé í ensku deildinni.

Burnley á fyrir höndum þrjá heimaleiki á næstu tíu dögum. Liðið tekur fyrst á móti Watford á laugardaginn, mætir svo Manchester United 8. febrúar og loks Liverpool 13. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×