Enski boltinn

Roy Keane gæti snúið aftur í þjálfun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roy Keane er á óskalista Sunderland.
Roy Keane er á óskalista Sunderland. Ash Donelon/Manchester United

Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur, gæti snúið sér aftur að þjálfun eftir tíu ára fjarveru, en Sunderland er sagt hafa áhuga á því að ræða við kappann.

Keane hóf þjálfaraferil sinn hjá Sunderland, en hann stýrði liðinu frá 2006 til 2008. Hann kom liðinu upp í úrvalsdeild á sínu fyrsta tímabili og hafnaði í 15. sæti árið eftir. Hann skildi svo við liðið í desember árið 2008 eftir erfitt gengi á fyrri hluta tímabils.

Keane var seinast aðalþjálfari fyrir rúmum tíu árum þegar hann þjálfaði Ipswich Town. Síðan þá hefur hann verið aðstoðarþjálfari írska landsliðsins, Aston Villa og Nottingham Forest, ásamt því að starfa sem sparkspekingur hjá Sky Sports.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur Keane nú áhuga á því að snúa sér aftur að þjálfun. Í samtali við Sky Sports árið 2014 talaði Írinn vel um tíma sinn hjá Sunderland og lofaði því að hann myndi láta reyna á þjálfaraferilinn aftur.

„Ég á góðar minningar frá tíma mínum hjá Sunderland. Þetta er flottur klúbbur. Það er bara slæmt að þetta hafi endað þannig að ég hafi átt í rifrildi við eigandann, en ég átti góða daga þarna,“ sagði Keane árið 2014.

„Ég mun verða þjálfari á ný. Ég mun klárlega fara aftur út í þjálfun,“ bætti hann við.

Keane er þó ekki sá eini sem kemur til greina sem næsti stjóri Sunderland. Neil Lennon, Neil Warnock og Grant McCann eru einnig á lista félagsins.

Sunderland situr nú í þriðja sæti ensku C-deildarinnar með 54 stig eftir 29 leiki, fimm stigum á eftir toppliði Rotherham. Efstu tvö sæti C-deildarinnar gefa beint sæti í B-deildinni, en þriðja til sjötta sæti gefa sæti í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×