Enski boltinn

Conte segir innkaupastefnu Tottenham skrýtna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antonio Conte er hissa á því að Tottenham hafi látið fjóra leikmenn fara í janúar.
Antonio Conte er hissa á því að Tottenham hafi látið fjóra leikmenn fara í janúar. Robin Jones/Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, furðar sig á því hvernig félagið stundar viðskipti eftir að félagsskiptaglugginn lokaði fyrr í vikunni og varar félagið við að gera sömu mistök og áður.

Tottenham fékk tvo leikmenn til liðs við sig frá Juventus í janúarglugganum, þá Dejan Kulusevski og Rodrigo Bentancur. Hins vegar yfirgáfu nokkrir leikmenn félagið, þar á meðal Tanguy Ndombele, Giovani Lo Celso og Bryan Gil, en þeir fóru allir á láni.

Ndombele er dýrasti leikmaður Tottenham frá upphafi, en félagið greiddi 54 milljónir punda fyrir leikmanninn árið 2019. Lo Celso kom til félagsins á rúmar 27 milljónir ári seinna og félagið greiddi tæpar 23 milljónir fyrir Gil í júlí.

Conte furðar sig á því að félagið sé að eyða svo háum fjárhæðum í leikmenn sem eru svo sendir á lán stuttu síðar.

„Yfirleitt þá kaupirðu leikmenn til að styrkja liðið,“ sagði Conte. „En ef þú sendir þá á lán eftir tvö til þrjú ár þá er það skrýtið.“

„Það þýðir að kannski þarftu að skoða hvað þú gerðir í fortíðinni til að skilja að þú gerðir mistök. Við þurfum að fylgjast betur með á leikmannamarkaðnum í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt ef við viljum styrkja liðið. Annars endarðu á að minnka gæðin í liðinu þínu.“

Ásamt Ndombele, Lo Celso og Gil yfirgaf Dele Alli félagið, en hann var seldur til Everton. Alli hafði verið í sjö ár hjá Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×