Enski boltinn

Klopp um Elliott: „Óttalaus og frábær fótboltamaður“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp var virkilega ánægður að sjá Harvey Elliott skora í endurkomu sinni eftir löng og erfið meiðsli.
Jürgen Klopp var virkilega ánægður að sjá Harvey Elliott skora í endurkomu sinni eftir löng og erfið meiðsli. Catherine Ivill/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var eðlilega í góðu skapi eftir 3-1 sigur liðsins gegn Cardiff í fjórðu umferð FA-bikarsins í dag. Þjóðverjinn hrósaði Harvey Elliott sérstaklega eftir leik, en leikmaðurinn ungi skoraði þriðja mark Liverpool eftir langa fjarveru vegna meiðsla.

„Það er fullt af litlum en góðum sögum í kringum þennan leik. Ég held að allir geti verið sammála um að hin mörkin hafi líka verið mikilvæg,“ sagði Klopp að leik loknum,

„Þetta var virkilega efiður leikur, en þetta endaði vel þannig að þetta er góður dagur.“

Harvey Elliott kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik, en hann hafði ekki spilað leik síðan hann fór úr ökklalið í leik gegn Leeds í byrjun september á síðasta ári. Elliott þakkaði traustið með því að skora þriðja mark Liverpool og Klopp hrósaði leikmanninum í hástert.

„Harvey var virkilega óheppinn að lenda í þessum meiðslum en að sama skapi heppinn með allt ferlið sem á eftir fylgdi og það gekk allt vel í dag. Hann stóð sig virkilega vel og sjúkrateymið stóð sig einnig virkilega vel.“

„Hann er óttalaus strákur og frábær fótboltamaður. Það gengur ekki alltaf vel þegar menn lenda í svona meiðslum en þegar þú ert ungur þá kemurðu þér í gegnum þau og hann gerði það. Nú er hann kominn aftur og það er frábært. Það var tilfinningarík stund þegar hann skoraði,“ bætti Klopp við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×