Enski boltinn

„Eitt stig fyrir svona frammistöðu er bara ekki nóg“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ralf Rangnick segir að hans menn hafi átt meira skilið í kvöld.
Ralf Rangnick segir að hans menn hafi átt meira skilið í kvöld. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Ralf Rangnick, bráðabirðastjóri Manchester United, var eðlilega ósáttur eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn botnliði Burnley í kvöld og tönnlaðist stöðugt á því að sínir menn hafi skorað þrjú mörk í leiknum.

„Við skoruðum þrjú mörk. Það er annað en á föstudaginn,“ sagði Rangnick að leik loknum.

„Seinna markið sem var dæmt af þá flaggaði línuvörðurinn tíu sekúndum eftir atvikið. Ég verð að segja eð mér fannst þetta hörð ákvörðun.“

Þjóðverjinn segir að sínir menn hafi spilað vel í fyrri hálfleik, en það hafi vantað ákefð í síðari hálfleikinn.

„Enn eina ferðina spiluðum við vel í fyrri hálfleik. Við stjórnuðum leiknum algjörlega. Við skoruðum þrjú mörk en tvö þeirra voru dæmd af.“

„Í seinni hálfleik vorum við ekki nógu ákveðnir. Það var alveg augljóst að þeir myndu mæta ákveðnir til leiks í seinni hálfleik. Við leyfðum þeim að skora jöfnunarmarkið og vörðumst ekki nógu vel.“

Rangnick segir kvöldið hafa verið vonbrigði, sérstaklega í ljósi þess að þeir hafi skorað þrjú mörk.

„Þetta var erfitt kvöld af því að við hefðum átt að vinna leikinn örugglega. Við skoruðum þrjú mörk í fyrri hálfleik þannig að það er ekki hægt að saka liðið um að hafa ekki verið hungraðir fyrstu 45 mínúturnar.“

„Þetta var líka kannski spurning um smá heppni. Eitt stig fyrir svona frammistöðu er bara ekki nóg,“ sagði Rangnick að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×