Enski boltinn

Klopp: Við eigum enga möguleika á því að ná þeim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp á hliðarlínunni á Anfield í gærkvöldi.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni á Anfield í gærkvöldi. AP/Jon Super

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, talaði niður möguleika Liverpool á því að vinna enska meistaratitilinn þrátt fyrir sigur á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eftir 2-0 sigur á Anfield í gær er Liverpool níu stigum á eftir Manchester City en á líka einn leik til góða á Englandsmeistarana.

Klopp var eftir leikinn spurður út í möguleikann á því að að ná City sem vann líka sigur í þessari umferð.

„Ég er ekki viss um að við séum í stöðu til að ná þeim þegar þeir eru á tánum,“ sagði Jürgen Klopp en bætti strax við:

„Við eigum enga möguleika á að ná þeim en það þýðir samt ekki að við munum ekki reyna að ná fram besta mögulega tímabilinu fyrir okkur,“ sagði Klopp.

„Það var virkilega mikilvægt fyrir okkur að vinna í kvöld. Þetta snýst ekki um að ná City því það eru fullt af félögum fyrir aftan okkur sem vilja komast nær. Það er mikilvægt verkefni líka,“ sagði Klopp.

Það var aðeins meiri von í viðtölunum við leikmennina Thiago Alcantara og Andrew Robertson.

„Við erum enn með í baráttunni. Við eigum leik inni og eigum síðan eftir að spila við þá. Enska úrvalsdeildin er enn opin,“ sagði Thiago.

„Eina leiðin til að svara þessari spurningu er með því að ná í úrslitin. Bilið er enn of stórt en við verðum bara að halda pressunni á þeim. Þetta verður spennandi lokakafli á tímabilinu og við erum enn að berjast á fjórum vígstöðvum,“ sagði Robertson við BT Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×