Enski boltinn

Neville veit hvaða leikmenn United eru á bak við lekann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fátt gengur upp hjá Manchester United þessa dagana.
Fátt gengur upp hjá Manchester United þessa dagana. getty/Ash Donelon

Gary Neville segir vita hvaða leikmenn Manchester United láku upplýsingum um meinta vanhæfni þjálfara liðsins til fjölmiðla.

Í síðustu viku var greint frá því að leikmenn United væru ósáttir við æfingar bráðabirgðastjórans Ralfs Rangnick og þeim þættu þær gamaldags. Þá kalla sumir leikmenn United aðstoðarmann Rangnicks, Chris Armas, Ted Lasso, eftir persónu úr samnefndum þáttum.

„Þeir eru að gera þetta núna, almannatenglar og markaðsteymi að gæta hagsmuna þeirra eigin leikmanna. En það sem þeir gera sér ekki grein fyrir er að þegar þeir fara með þetta í fjölmiðlana fara þeir með þetta til okkar. Við vitum því hverjir standa á bak við þetta,“ sagði Neville á Sky Sports.

„Þetta var lítilmannlegt. Mér fannst ekkert fyndið að þeir væru að líkja aðstoðarmanni Rangnicks við Ted Lasso og raunar ógeðslegt. Þetta kjarnar það sem mér finnst um þá: þeir sýna ekki virðingu.“

Neville er heldur ekki hrifinn af sögum þess efnis að leikmenn United vilji frekar fá Mauricio Pochettino en Erik ten Hag sem næsta stjóra liðsins.

„Ég kann ekki við svona sögur um að leikmenn vilji þennan stjóra. Hættiði því og sinnið ykkar starfi. Ef Pochettino er fyrsta val stjórnarinnar á hún að ráða hann. En þeir ættu ekki að ráða hann ef það er vilji leikmannanna. Það væri glatað ef þeir hlustuðu á þá,“ sagði Neville.

United gerði 1-1 jafntefli við Southampton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem United missir niður forskot og endar á að gera jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×