Enski boltinn

Hetja Newcastle fótbrotin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kieran Trippier situr hér vonsvikinn á grasinu um helgina og vissi augljóslega að hann var mikið meiddur.
Kieran Trippier situr hér vonsvikinn á grasinu um helgina og vissi augljóslega að hann var mikið meiddur. Getty/Stu Forster

Loksins þegar var farið að birta yfir Newcastle liðinu eftir þrjá sigurleiki í röð kom annað áfall.

Enski landsliðsmaðurinn Kieran Trippier hefur komið frábærlega inn í Newcastle liðið að undanförnu en hann var keyptur frá Atletico Madrid í síðasta mánuði.

Kieran Trippier á mikinn þátt í uppkomu Newcastle og hefur verið hetja liðsins í síðustu tveimur leikjum.

Trippier skoraði eina markið í sigrinum á Aston Villa með skoti beint úr aukaspyrnu og innsiglaði einnig 3-1 sigur á Everton í leiknum á undan með marki beint úr aukaspyrnu.

Svo mikil eru áhrifin frá honum 31 árs gamla Trippier að hann bar fyrirliðaband liðsins um helgina.

Trippier meiddist í leiknum á móti Aston Villa en hann var tekinn af velli eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik.

Nú er komið í ljós að hann braut þarna bein í vinstri fæti og þarf að gangast undir aðgerð. Það þýðir líka um leið að það gætu verið allt að tveir mánuðir í það að hann komist aftur inn á völlinn.

Eftir þriðja deildarsigurinn í röð um helgina þá komst Newacastle fjórum stigum frá fallsæti sem eru frábærar fréttir fyrir lið sem hefur verið í miklu basli allt tímabili.

Nú er að sjá hversu lengi Trippier verður frá keppni og hver áhrifin verða á liðið að missa þennan leiðtoga úr liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×