Enski boltinn

Robbie Fowler sótti um gamla starfið hans Milosar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robbie Fowler áritar Liverpool treyju sem nafni hans á bakinu.
Robbie Fowler áritar Liverpool treyju sem nafni hans á bakinu. Getty/Andrew Powell

Liverpool goðsögnin Robbie Fowler sótti um þjálfarastarf í sænska fótboltanum í vetur en þessu slær sænska Sportbladet upp í frétt á miðlum sínum.

Fowler er einn af þeim sem vildu fá að taka við sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby. Íþróttastjóri Hammarby vill ekki staðfesta nein nöfn en Sportbladet segist hafa sterkar heimildir fyrir því að þessi fyrrum markavél í enska boltanum hafi sótt um starfið.

Hammarby var að leita að nýjum þjálfara eftir að hafa rekið Íslandsvininn Milos Milojevic.

Milos var rekinn eftir að hafa farið án leyfis í viðræður við norska félagið Rosenborg. Norðmennirnir vildu ekki Milos á endanum en hann var ekki lengi án starfs og er nú þjálfari Malmö FF.

Hammarby réði á endanum Martí Cifuentes, sem var þjálfari AaB í Danmörk en hann er 39 ára gamall Spánverji.

Robbie Fowler hefur verið að þjálfa fótboltanum hinum megin á hnettinum eða í Tælandi, Ástralíu og nú síðast á Indlandi. Hann vildi greinilega komast til Evrópu.

Fowler var mikill markaskorari á tíma sínum með Liverpool og er sjöundi markahæsti ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi. Hann er líka markahæsti leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni með 128 mörk í 266 leikjum og skoraði alls 183 mörk fyrir félagið.

Fowler spilaði einnig fyrir Leeds United, Manchester City, Cardiff og Blackburn áður en hann endaði feril sinn í Ástralíu og Tælandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×