Enski boltinn

Tekur ekki fyrirliðabandið af Harry Maguire

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire verður með fyrirliðabandið hjá Manchester United það er ef hann kemst í byrjunarliðið.
Harry Maguire verður með fyrirliðabandið hjá Manchester United það er ef hann kemst í byrjunarliðið. AP/Jon Super

Harry Maguire hefur ekki verið sannfærandi í vörn Manchester United að undanförnu en knattspyrnustjóri félagsins ætlar samt ekki að gera breytingu á stöðu hans innan liðsins.

Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, fékk spurningu um fyrirliða sinn á blaðamannafundi fyrir deildarleik á móti Brighton & Hove Albion á Old Trafford í kvöld.

Rangnick viðurkennir samt að Maguire hafi ekki verið að spila vel að undanförnu enda leit miðvörðurinn ekki alltof vel út í nokkur skipti í leikjum á móti Burnley og Southampton.

„Hann hefur ekki sýnt sitt besta í síðustu tveimur leikjum, bæði gegn Southampton og í markinu á móti Burnley en hann er fyrirliðinn okkar og ég sé enga ástæðu til að breyta því,“ sagði Ralf Rangnick.

Það er samt ekki eins og þetta hafi verið fyrstu slöku leikirnir hjá Maguire á leiktíðinni. Stuðningsmenn United vilja margir sjá hann missa fyrirliðabandið og sumir vilja jafnvel sjá hann á bekknum.

„Mér fannst hann standa sig einstaklega vel þegar hann kom til baka eftir meiðslin og átti meðal annars mjög góðan leik á móti West Ham,“ sagði Rangnick.

Maguire fékk fyrirliðabandið hjá Manchester United í janúar 2020 eða aðeins fimm mánuðum eftir að félagið borgaði Leicester City áttatíu milljónir punda fyrir hann.

Rangnick er á því að Maguire þurfi meiri tíma til að aðlagast nýjum leikstíl liðsins alveg eins og allir aðrir í liðinu.

„Þessi leikstíll er nýr fyrir honum. Hann var vanur að spila í þriggja manna vörn hjá enska landsliðinu,“ sagði Rangnick meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×