Enski boltinn

„Veist ekki hvort þeir vilji selfie eða eru með hníf“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmaður Leicester veittist að leikmönnum Nottingham Forest er þeir fögnuðu marki gegn Leicester í FA-bikarnum.
Stuðningsmaður Leicester veittist að leikmönnum Nottingham Forest er þeir fögnuðu marki gegn Leicester í FA-bikarnum. Tim Goode/PA Images via Getty Images

John Mousinho, formaður leikmannasamtaka Englands, vill að þeir stuðningsmenn sem hlaupa inn á völlinn í miðjum leik fái lífstíðarbann frá fótboltavöllum landsins.

Á dögunum var stuðningsmaður Leicester ákærður af lögreglunni í Bretlandi eftir að hann réðst inn á völlinn og reyndi að slást við leikmenn Nottingham Forest í bikarleik liðanna.

Mousinho segir að það verði að setja strangari viðurlög við því að hlaupa inn á völlinn. Reglurnar séu til að verja leikmennina.

„Ég get ekki séð ástæðu fyrir því að stuðningsmanni ætti að vera hleypt aftur inn á fótboltavöll ef þeir ryðjast inn á völlinn og ráðast á leikmenn,“ sagði Mousinho.

„Refsingin þarf að vera það alvarleg að fólk taki meðvitaða ákvörðun um að sleppa þessu.“

Mousinho hélt áfram og benti á að fyrstu viðbrögð leikmanna eru að reyna að verja sig þegar stuðningsmenn hlaupa inn á.

„Þegar stuðningsmenn koma inn á völlinn - sérstaklega þegar þeir hafa áhrif á leikmenn - þá þarf refsingin að vera eins hörð og mögulegt er, og við myndum styðja það.“

„Frá sjónarhorni leikmannasamtakana þá er það fyrsta sem leikmenn gera þegar stuðningsmenn ryðjast inn á völlinn að verja sig. Leiðbeiningarnar sem leikmenn fá er að halda sig í burtu, en þegar einhverjir koma hlaupandi í átt að þér þá veistu ekki hvort þeir vilja selfie eða eru með hníf,“ sagði Mousinho að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×