Enski boltinn

West Ham mistókst að endurheimta Meistaradeildarsætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
West Ham og Newcastle skiptu stigunum á milli sín í dag.
West Ham og Newcastle skiptu stigunum á milli sín í dag. Warren Little/Getty Images

West Ham og Newcastle gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Heimamenn í West Ham gátu lyft sér aftur upp í Meistaradeildarsæti með sigri, en Newcastle er nú fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Það voru heimamenn í West Ham sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Aaron Cresswell tók þá aukaspyrnu utan af kanti og fann kollinn á Craig Dawson sem skallaði boltann í netið eftir rúmlega hálftíma leik.

Enn var staðan 1-0 þegar venjulegum leiktíma í fyrri hálfleik lauk, en Joe Willock jafnaði metin fyrir gestina í uppbótartíma með skoti úr þröngu færi og staðan því 1-1 þegar gengið var til búningsherbergja.

Hvorugu liðinu tókst að skora í síðari hálfleik og því varð niðurstaðan 1-1 jafntefli. Bæði lið hefu líklega óskað sér að taka öll stigin þrjú, enda eru bæði þessi lið í harðri baráttu á sitthvorum enda töflunnar.

West Ham situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 42 stig eftir 26 leiki, einu stigi á eftir Manchester United sem situr í fjórða og seinasta Meistaradeildarsætinu. Newcastle situr hins vegar í 17. sæti með 22 stig, en liðið er nú fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×