Enski boltinn

Everton nálgast fallsvæðið | Botnliðin unnu sína leiki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það gengur ekkert hjá Everton þessa dagana.
Það gengur ekkert hjá Everton þessa dagana. Steve Bardens/Getty Images

Everton tapaði enn einum leiknum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þegar liðið heimsótti Southampton þar sem heimamenn fóru með 2-0 sigur. Þá unnu botnliðin Burnley og Watford góða sigra í sínum leikjum og hleyptu miklu lífi í fallbaráttuna.

Enn var markalaust þegar flautað var til hálfleiks í leik Southampton og Everton, en þeir Stuart Armstrong og Shane Long sáu um markaskorun heimamanna í síðari hálfleik og tryggðu Southampton 2-0 sigur.

Southampton siglir lygnan sjó í tíunda sæti deildarinnar með 32 stig eftir 25 leiki, en Everton situr hins vegar í 16. sæti með 22 stig, aðeins fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Þá vann Burnley mikilvægan 3-0 sigur gegn Brighton á sama tíma. Wout Weghorst og Josh Brownhill skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleik, en Aaron Lennon tryggði 3-0 sigur Burnley þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Burnley situr nú í 18. sæti, fimm stigum á eftir Everton og Newcastle sem eru rétt fyrir ofan fallsvæðið. Brighton hefur ekki átt góðu gengi að fagna undanfarið, en liðið hefur aðeins unnið einn af seinustu sex deildarleikjum og situr nú í níunda sæti.

Að lokum vann botnlið Watford góðan 1-0 sigur gegn Aston Villa þar sem Emmanuel Dennis skoraði eina marks leiksins þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Watford situr hins vegar enn á botni deildarinnar með 16 stig, en sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir fallbaráttuna sem framundan er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×