Enski boltinn

Carra: Leeds leikurinn nú kannski mikil­vægari fyrir Liver­pool en úr­slita­leikurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane skorar hér markið sitt á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Sadio Mane skorar hér markið sitt á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Getty/ Joe Prior

Þetta er stór vika fyrir Liverpool á heimavígstöðvunum. Deildarleikur á Anfield á miðvikudagskvöldið og svo úrslitaleikur enska deildabikarsins á Wembley á sunnudaginn. Eftir úrslit helgarinnar er deildarleikurinn orðinn stærri en áður.

Jamie Carragher, sérfræðingur á Sky Sports og fyrrum leikmaður Liverpool í sautján ár, fagnaði því að fá meiri spennu í titilbaráttuna eftir að Liverpool vann upp þrjú stig á topplið Manchester City um helgina.

Liverpool vann sinn leik á móti Norwich á meðan Manchester City tapaði á heimavelli á móti Tottenham. Það þýðir að nú munar sex stigum á City og Liverpool auk þess að Liverpool á einn leik til góða. Hann er á móti Leeds á miðvikudaginn kemur.

„Nú líður manni eins og deildarleikurinn á móti Leeds á miðvikudaginn sé orðinn mikilvægari en bikarúrslitaleikurinn á móti Chelsea á sunnudaginn,“ sagði Jamie Carragher á Sky Sports.

Liverpool hefur aldrei orðið bikarmeistari undir stjórn Jürgen Klopp, hvorki í enska bikarnum né í enska deildabikarnum.

„Það er kannski smá von að fæðast um að Liverpool geti gert eitthvað í titilbaráttunni og hún birtist kannski fyrst þegar Manchester City tapaði stigum á móti Southampton. Það var í fyrsta sinn í langan tíma sem þeir misstu af einhverjum stigum,“ sagði Carragher.

„Þú sérð sjaldan lið Pep Guardiola láta ýta sér svona aftarlega á völlinn eins og á móti Tottenham. Ég myndi því segja að þeir séu í heita sætinu. Það er samt risastórt verkefni fyrir öll lið að gera eitthvað á móti City og það verður ekki auðvelt fyrir gæðalið eins og Liverpool að koma hingað og vinna,“ sagði Carragher.

„Það frábæra við þessi úrslit, ekki bara fyrir stuðningsmenn Liverpool, heldur fyrir allt landið er að það lítur núna út fyrir það að við fáum baráttu um titilinn. Fyrir fjórum eða sex vikum þá leit alls ekki út fyrir það. Vonandi verður það þannig áfram,“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×