Lífið

„Var ekki manneskja fyrir honum á þessum tíma, ég var bara kyn­lífs­leik­fang“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sara Björk bjó við mikið heimilisofbeldi í nokkur ár. 
Sara Björk bjó við mikið heimilisofbeldi í nokkur ár. 

Sara Björk Sigurðardóttir lýsir áralöngu sambandi með karlmanni sem ofbeldisfullu á margan hátt. Karlmaðurinn hafi beitt hana andlegu ofbeldi, neytt hana til kynlífs með öðrum mönnum og tekið athæfið upp á myndbönd. Sara Björk sagði sögu sína í þættinum Heimilisofbeldi á Stöð 2 í gærkvöldi.

Sara segir manninn hafa nauðgað sér þegar hún svaf og tekið það einnig upp á myndband.

Sara eignaðist stúlku með manninum og hafa þau í dag sameiginlega forsjá yfir barninu. Hún ákvað einn daginn að kæra hann, en málið var látið niður falla þrátt fyrir að myndbönd hafi verið til. Hún segist seinna hafa komist að því að maðurinn hafi haldið fram hjá sér öll árin og meðal annars með fjölskyldumeðlimum hennar. Hann hafi einfaldlega logið að þeim konum að þau væru í opnu sambandi.

Brotin og ónýt

Í þættinum í gær lýsir Sara atviki þegar maðurinn hafði skipulagt kynlífskvöld ásamt öðrum manni á hóteli.

„Þá var aðalmálið að hann vildi sjá mig vera með manni sem væri með rosalega stóran. Ég sagði að það væri ekki nein fantasía hjá mér að vera með einhverjum öðrum manni en ég var bara brotin og ónýt,“ segir Sara og heldur áfram.

„Eins ljótt og það er þá hafði mamma mín gefið okkur nótt á hóteli og hann vildi nýta hana í þetta. Mamma kom að norðan og passaði fyrir mig. Ég drekk í mig kjark eins og áður og ég man eftir því að hann er að sofa hjá mér þessi maður og mér finnst það vont af því að hann er eins og hann er. Hann dregur mig inn á bað og ég er að reyna útskýra fyrir honum að mér finnist þetta vont og mig langaði ekki að gera þetta,“ segir Sara. Hún bætir við að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hún æsir sig við barnsföður sinn.

„Ég segi við hann, mér finnst þetta svo vont af því að hann er með svo stóran. Þarna var ég með tárin í augunum. Ég gleymi aldrei grímunni sem kom upp á honum, að ég skyldi voga mér að segja að þessi maður væri á einhvern hátt stærri en hann og þarna eyðilagði ég kvöldið og hann lét mig aldrei gleyma þessu. Þessi maður sem kom þarna og ég þekki ekki neitt, hann sýndi þessu meiri skilning en maki minn. Ef hún vill ekki meir, eða henni finnst þetta vont þá eigum við ekki að vera að þessu. Ég var ekki manneskja fyrir honum á þessum tíma, ég var bara kynlífsleikfang sem hann gat notað.“

Í gærkvöldi fór Sindri Sindrason af stað með nýja þætti sem kallast Heimilisofbeldi. Í þeim fær hann að skyggnast inn í heim þolenda sem virðast eiga það sameiginlegt að þora lengst af ekki að segja frá, skammast sín og vilja að enginn viti.

Klippa: Var ekki manneskja fyrir honum á þessum tíma, ég var bara kyn­lífs­leik­fang





Fleiri fréttir

Sjá meira


×