Enski boltinn

Meirihluti stuðningsmanna vill losna við Ronaldo

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo ætti að yfirgefa Manchester United í sumar að mati meirihluta stuðningsmanna.
Cristiano Ronaldo ætti að yfirgefa Manchester United í sumar að mati meirihluta stuðningsmanna. Getty/Martin Rickett

Skoðanakönnun The Athletic á meðal stuðningsmanna Manchester United kemur ansi illa út fyrir Cristiano Ronaldo og sérstaklega Harry Maguire en Bruno Fernandes er greinilega aðalmaður liðsins í huga flestra.

The Athletic gerði skoðanakönnun á meðal þeirra lesenda sinna sem styðja United og á meðal helstu niðurstaðna er sú staðreynd að 55% þeirra vilja ekki að Ronaldo verði áfram með liðinu á næstu leiktíð.

Ronaldo, sem nú er orðinn 37 ára gamall, sneri aftur til United síðasta sumar eftir 12 ára fjarveru en mörkin níu sem hann hefur skorað í ensku úrvalsdeildinni í vetur duga ekki til að stuðningsmenn United vilji halda Portúgalanum.

Þess ber þó að geta að þó að meirihluti stuðningsmanna United vilji að Ronaldo yfirgefi félagið í sumar telja 64% þeirra að hann eigi að vera í byrjunarliðinu út þessa leiktíð.

Hluti stuðningsmannahóps United hefur kallað eftir því að fyrirliðinn Maguire missi sæti sitt í liðinu og samkvæmt könnuninni vilja aðeins 12% að hann haldi fyrirliðabandinu. Fernandes er vinsælastur og vilja 42% að hann verði gerður að fyrirliða, og 25% að markvörðurinn David de Gea sé fyrirliði.

Vilja Ten Hag sem stjóra

Samkvæmt könnuninni vilja 61% stuðningsmanna að Maguire missi sæti sitt í byrjunarliðinu. Svipaður fjöldi, eða 60%, telur að Fernandes sé mikilvægasti leikmaður liðsins.

United er í leit að framtíðarknattspyrnustjóra til að taka við af Ralf Rangnick í sumar þegar hann fer í starf ráðgjafa hjá félaginu.

Samkvæmt könnuninni vilja 58% stuðningsmanna fá Erik ten Hag, stjóra Ajax, en 25,5% vilja Mauricio Pochettino sem stýrir PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×