Enski boltinn

Fred hjá Man. Utd: Svolítið skrítið að vera með bráða­birgða­stjóra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fred fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Leeds United á Elland Road um helgina.
Fred fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Leeds United á Elland Road um helgina. AP/Jon Super

Brasilíumaðurinn Fred hefur fundið sig mun betur hjá Manchester United eftir að Ralf Rangnick tók við af Ole Gunnar Solskjær í nóvember en finnst það svolítið furðulegt fyrirkomulag að ráða bara knattspyrnustjóra til bráðabirgða.

Fred var á skotskónum í síðasta leik þegar Manchester United vann 4-2 útisigur á Leeds um síðustu helgi en liðið mætir Atletico Madrid í Meistaradeildinni í kvöld. Fred segir að sá leikur hafi verið fullkomið svar við slúðurfréttum um óeiningu innan liðsns.

Fred var í viðtali á portúgölsku og var spurður út í fyrirkomulagið með knattspyrnustjóra félagsins. „Það er svolítið skrítið að vera með bráðabirgðastjóra,“ sagði Fred við TNT Sports.

„Ég veit að það er mikilvægt að ná góðum úrslitum í fótbolta eins fljótt og auðið er en það er líka mikilvægt að hafa langtímaplan,“ sagði Fred.

„Mér finnst það svolítið slæmt fyrir okkur að vera ekki með framtíðastjóra en þetta snýst allt um skammtímamarkmið núna,“ sagði Fred.

„Allir sem koma til þessa félags koma þangað til að vinna titla,“ sagði Fred sem kom til United frá Shakhtar Donetsk árið 2018. United hefur ekki unnið einn titil á tíma hans á Old Trafford.

„Það er eins með mig og þá Bruno [Fernandes], Alex [Telles], Cristiano [Ronaldo], [Jadon] Sancho og okkur alla. Við viljum vinna titla en þetta hefur verið langur þurrkur,“ sagði Fred.

„Ef þú vilt ekki vinna titla þá áttu ekki skilið að spila fyrir Manchester United. Við erum enn með í Meistaradeildinni en sjáum til hvort við getum ekki komið sterkari inn í næsta tímabil og fundið okkar besta bolta,“ sagði Fred.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×