Enski boltinn

„Ef við vinnum alla leiki okkar þá eigum við möguleika“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp fagnar sigrinum í gær með Virgil van Dijk en Liverpool er á mikilli sigurgöngu þessa dagana.
Jürgen Klopp fagnar sigrinum í gær með Virgil van Dijk en Liverpool er á mikilli sigurgöngu þessa dagana. EPA-EFE/Tim Keeton

Jürgen Klopp og lærisveinar hans í Liverpool eru aðeins einum sigurleik frá því að jafna við Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Klopp reyndi að halda pressunni á City í viðtölum eftir leikinn.

Liverpool liðið sýndi styrk sinn með 6-0 stórsigri á Leeds á Anfield í gærkvöldi en það var leikur sem liðið átti inn á Englandsmeistara City. Þetta var ennfremur níundi sigur Liverpool í röð í öllum keppnum.

Það besta við þennan stórsigur á Liverpool er nú með fimmtíu mörk í plús á móti 46 mörkum í plús hjá Manchester City.

Næsti leikur Liverpool er síðan úrslitaleikur enska deildabikarsins sem er á móti Chelsea á Wembley um helgina.

„Nú munar þremur stigum á liðunum en svo verða það orðin sex stig um helgina þegar City vinnur líklega sinn leik. Ef við vinnum alla leiki okkar þá eigum við möguleika,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool eftir leikinn. Hann var mjög sáttur í leikslok eins og sjá má hér fyrir neðan.

„Ég held að fyrir hlutlausa fólkið sé betra að þetta séu þrjú eða sex stig í staðinn fyrir tuttugu eða þrjátíu stiga forskot. Þetta er því meira spennandi svona en við verðum að vinna marga leiki á móti erfiðum mótherjum svo að þetta verður slungið verkefni,“ sagði Klopp.

„Það eru núna tíu dagar þar til að við spilum næst í deildinni og í millitíðinni eru tveir leikir í allt öðrum keppnum. Annar þeirra er úrslitaleikur og hinn er í sextán liða úrslitum bikarsins. Þetta verða allt öðruvísi leikir en við þurfum líka að vera tilbúnir fyrir þá,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×