Enski boltinn

Breskur þingmaður vill gera eigur eiganda Chelsea upptækar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roman Abramovich, eigandi Chelsea, með bikarinn fyrir sigur Chelsea í heimsmeistarakeppni félagsliða á dögunum.
Roman Abramovich, eigandi Chelsea, með bikarinn fyrir sigur Chelsea í heimsmeistarakeppni félagsliða á dögunum. Getty/Michael Regan

Roman Abramovich, rússneskur eigandi Chelsea, var til umræðu á breska þinginu í kjölfarið á innrás Rússa í Úkraínu þótt málið tengist ekki beint aðgerðum Rússa heldur upplýsingum sem láku úr innanríkisráðuneytinu.

Chris Bryant, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði á breska þinginu í gær, að hann hafi undir höndum skjal úr innanríkisráðuneytinu þar sem kemur fram að Roman Abramovich ætti ekki að geta haft bækistöðvar sínar í Bretlandi.

Bryant sagði að skjalið hafi verið skrifað árið 2019 en að lítið hafi gerst í málinu síðan.

Abramovich er einn af ríkustu mönnum Rússlands og er sagður vera náinn Putin forseta.

Fyrr í þessari viku tilkynnti breska ríkisstjórnin um að hún myndi beita refsiaðgerðum gegn þremur rússneskum milljarðarmæringum með sterk tengsl við Vladimir Putin sem hluti að viðbrögðum við því sem Rússar eru að gera í Úkraínu.

Þingmaðurinn vill nú að Abramovich bætist í þennan hóp og að Bretar ættu að taka af honum Chelsea Football Club og gera eigur hans upptækar.

„Það hlýtur að vera lítill vafi á því lengur að herra Abramovich ætti ekki að geta átt fótboltafélag í þessu landi, eða hvað? Ættum við ekki að vera að skoða það að gera eitthvað af eigum hans upptækar þar á meðal 26 milljarða heimili hans,“ spurði Chris Bryant, þingmaður Verkamannaflokksins, á þinginu.

Roman Abramovich hefur átt Chelsea frá því í júní 2003 og hefur dælt pening inn í félagið síðan. Síðan hefur liðið unnið fjölmarga titla og komist í hóp bestu liða Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×