Vlahovic með tvennu í fimm marka leik
Dusan Vlahovic er heldur betur farinn að láta að sér kveða með ítalska stórveldinu Juventus eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá Fiorentina í janúar.
Vlahovic skoraði tvennu í 2-3 sigri Juventus á Empoli í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Moise Kean kom Juventus á bragðið eftir rúmlega hálftíma leik en Szymon Zurkawski var fljótur að jafna metin aftur fyrir heimamenn.
Vlahovic sá svo til þess að Juventus færi með forystu í leikhléið með mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Hann kom Juventus í 1-3 eftir rúmlega klukkutíma leik. Andrea La Mantia lagaði stöðuna fyrir heimamenn áður en yfir lauk en lokatölur 2-3 fyrir Juventus.