Enski boltinn

Rangnick: „Við gerðum allt nema að skora“

Atli Arason skrifar
Ralf Rangnick var óánægður eftir leik.
Ralf Rangnick var óánægður eftir leik. EPA-EFE/PETER POWELL

Ralf Rangnick, þjálfari Manchester United, var pirraður og svekktur eftir markalausa jafntefli sinna manna gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Við gerðum allt nema að skora. Það er erfitt að samþykkja þessi úrslit en þegar þú klúðrar þessum fjölda af marktækifærum þá er flókið að vinna fótboltaleiki. Við vorum með fulla stjórn á leiknum allan tíman,“ sagði Rangnick í viðtali eftir leik.

„Við þurfum að vera beittari fyrir framan markið, það er varla hægt að búa til fleiri marktækifæri en við gerðum í dag. Þegar allt kemur til alls þá er þetta mjög svekkjandi dagur.“

Ragnick átti hreinlega erfitt með að trúa því að United hafi ekki skorað mark í leiknum.

„Ef einhver hefði sagt við mig fyrir leik að við myndum skapa eins mörg marktækifæri og við gerðum í leiknum þá myndi ég halda að við myndum allavega skora eitt eða tvö mörk.“

Aðspurður af því hvort að lukkudísirnar hefðu einfaldlega ekki verið með United í liði í dag þá sagði Rangnick að þetta væri blanda af óheppni og óskilvirkni.

„Stundum erum við óheppnir, eins og þegar Ronaldo skaut í stöngina. Við fengum samt líka mörg tækifæri einn á móti markverði sem við nýttum ekki, þá er það ekki spurning um heppni heldur hversu skarpur og skilvirkur maður er,“ sagði Ralf Rangnick, þjálfari Manchester United.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×