Enski boltinn

„Ánægður að geta veitt fólki gleði á þessum myrku tímum sem við erum að lifa“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Titillinn á loft.
Titillinn á loft. vísir/Getty

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, var bæði dramatískur og háfleygur eftir að hafa lyft enska deildabikarnum á Wembley í kvöld.

Ein af hetjum Liverpool í leiknum var írski markvörðurinn Caoimhin Kelleher sem skoraði eitt marka liðsins í vítaspyrnukeppninni. Klopp segist hafa hugsað það vel hvort hann ætti að leyfa stráknum að spila frekar en aðalmarkverði félagsins, Alisson Becker.

„Þó þetta sé atvinnumennska þá verður þú að hafa pláss fyrir tilfinningar. Caoimhin Kelleher er ungur strákur og hafði spilað alla leikina í keppninni. Hvað gat ég gert? Ég er bæði atvinnumannaþjálfari og manneskja. Manneskjan vann í þetta skiptið og hann átti þetta skilið,“ sagði Klopp.

Þó ekkert löglegt mark hafi verið skorað á fyrstu 120 mínútum leiksins var leikurinn bráðfjörugur og Klopp sagði Liverpool oft hafa haft heppnina með sér.

„Chelsea eru ótrúlega öflugir og þetta var stál í stál. Við vitum að við vorum líka heppnir. Leikurinn hefði getað farið 5-5,“ segir Klopp.

„Mér líður vel en mér hefði líka liðið vel við hefðum spilað 90 mínútur og unnið 1-0 og hefðum getað drifið okkur heim. Við verðum að leggja hart að okkur. Við spilum aftur á miðvikudag, eitthvað sem ég get ekki trúað núna en við verðum að mæta. Það er heimaleikur og það verða allir ennþá í skýjunum eftir þetta,“ sagði Klopp og lagði mikla áherslu á að stuðningsmenn Liverpool ættu að njóta kvöldsins.

„Ég er ánægður með að geta veitt fólki gleði á þessum myrku tímum sem við erum að lifa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×