Enski boltinn

Tuchel hélt uppi vörnum fyrir Kepa

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Skiptingin umdeilda.
Skiptingin umdeilda. vísir/Getty

Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, segir það hafa verið rétta ákvörðun að skipta Kepa Arrizabalaga inn fyrir Edouard Mendy í lok framlengingar í úrslitaleik Liverpool og Chelsea í gær.

Mendy hafði átt frábæran leik á milli stanganna en Tuchel segir alla hjá Chelsea meðvitaða um að Kepa sé þeirra besti maður þegar kemur að því að verjast vítaspyrnum.

„Við höfum gert þetta áður með Kepa. Hann er aðeins betri í því að verja vítaspyrnur og þess vegna tók ég þessa ákvörðun,“ segir Tuchel.

Kepa náði hins vegar ekki að verja eina einustu spyrnu Liverpool manna og fór að lokum svo að hann þurfti sjálfur að fara á vítapunktinn eftir að hafa fengið á sig ellefu mörk. Þar brást honum bogalistin og titillinn því Liverpool manna.

„Það er óvenjulegt að allir ellefu leikmennirnir þurfi að taka víti. Hann var of fljótur á sér. Það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir Tuchel um vítaspyrnu Kepa.

„Það er hart að kenna honum um og þó við finnum til með honum þá er tapið ekki honum að kenna. Við tókum þessa ákvörðun. Sömu ákvörðun og við tókum síðast þegar við fórum í vítaspyrnukeppni því Kepa æfir sig í að verja vítaspyrnur daglega og við vitum hve góður hann er í því.“

„Hann hefur einfaldlega meiri tíma en Edou (Edouard Mendy) á æfingasvæðinu því Edou spilar miklu meira,“ sagði Tuchel og var mikið í mun að verja ákvörðun sína.

„Það vita allir í liðinu hve góður Kepa er í að verja víti. Það á líka sinn þátt í hve góðar spyrnurnar okkar voru. Því miður náði hann engri vörslu því vítin þeirra voru stórkostleg,“ segir Tuchel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×