Enski boltinn

Rangnick efins um Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Að mati Ralfs Rangnick ræður Cristiano Ronaldo ekki við að vera aðalmaðurinn í sókn Manchester United á næsta tímabili.
Að mati Ralfs Rangnick ræður Cristiano Ronaldo ekki við að vera aðalmaðurinn í sókn Manchester United á næsta tímabili. getty/Chris Brunskill

Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri Manchester United, hefur verulegar efasemdir um að Cristiano Ronaldo geti leitt sóknarlínu liðsins á næsta tímabili.

Eftir að hafa farið vel af stað með United eftir komuna frá Juventus síðasta haust hefur Ronaldo átt erfitt uppdráttar að undanförnu. Í síðustu tíu leikjum United hefur hann aðeins skorað eitt mark sem þykir rýr uppskera á þeim bænum.

Þrátt fyrir mestu markaþurrð sína frá tímabilinu 2008-09 á Ronaldo fast sæti í byrjunarliði United. Rangnick er þó við það að missa þolinmæðina gagnvart Ronaldo og efast um að hann geti verið í aðalhlutverki í sóknarleik United á næsta tímabili. Þetta herma heimildir Manchester Evening News.

Rangnick lætur að öllum líkindum af störfum sem bráðabirgðastjóri United eftir tímabilið. Næstu tvö ár verður hann svo í eins konar ráðgjafarhlutverki hjá liðinu. Að hans mati er forgangsatriði fyrir United að kaupa ungan framherja.

Hinn 37 ára Ronaldo er með samning við United út næsta tímabil. Hann hefur skorað fimmtán mörk í þrjátíu leikjum í öllum keppnum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×